Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 630. máls.

Þskj. 923  —  630. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      1. málsl. fellur brott.
     b.      Orðin „að öðru leyti“ í 2. málsl. falla brott.

2. gr.

    5. málsl. 8. gr. laganna verður svohljóðandi: Stefnt skal að því að nefndin ljúki verkinu á árinu 2011.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, var ríkinu falið eignarhald á landi og hvers konar landsréttindum og hlunnindum á svæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti, þ.e. hinum svonefndu þjóðlendum. Með sömu lögum var sérstakri nefnd, óbyggðanefnd, falið að eiga frumkvæði að því að fara með skipulögðum hætti yfir hvaða svæði þetta væru og skera úr um mörk þeirra og eignarlanda og önnur réttindi innan þjóðlendna. Gert var ráð fyrir að nefndin starfaði innan ákveðins tímaramma og lyki störfum fyrir árið 2007. Lögum þessum hefur tvívegis verið breytt, sbr. lög nr. 65/ 2000 og nr. 7/2005. Fyrri breytingin varðaði einkum málsmeðferð og kostnað af hagsmunagæslu og sú síðari var gerð í tengslum við endurskoðun ákvæða einkamálalaga um gjafsókn.
    Óbyggðanefnd hefur nú kveðið upp úrskurði í 21 máli, á svæði sem spannar stærstan hluta Suðurlands og Suðausturlands, og meðferð mála á Suðvesturlandi og Norðausturlandi stendur yfir, hin fyrrnefndu á lokastigi. Í október 2004 gengu fyrstu dómar Hæstaréttar í þjóðlendumálum, nánar tiltekið í málum nr. 47/2004 og 48/2004. Bæði málin vörðuðu úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 4/2000, „Biskupstungnaafréttur og efstu lönd í Biskupstungnahreppi.“ Þar staðfesti Hæstiréttur í öllum meginatriðum niðurstöður óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu einstakra landsvæða. Þannig var dæmt eignarland innan landamerkja tiltekinna jarða en þjóðlenda og afréttur á bæði Framafrétti og Afrétti norðan vatna. Dómarnir eru tvímælalaust fordæmisgefandi og meðal annars skýr staðfesting á því að meta verði gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega, þar á meðal með hliðsjón af eldri heimildum.
    Óhjákvæmilegt þykir nú að gera tvær breytingar á gildandi lögum. Í fyrsta lagi þykir ástæða til að afnema ákvæði laganna um að formaður óbyggðanefndar skuli vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri hennar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Í öðru lagi er nú ljóst að verkefni óbyggðanefndar er mun umfangsmeira og tímafrekara en í upphafi leit út fyrir. Því er nauðsynlegt að miða lok þess við árið 2011 í stað 2007, svo sem upphaflega var ráðgert. Um nánari ástæður þessa vísast til þeirra athugasemda sem hér fara á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að afnumin verði þau fyrirmæli í 1. málsl. 5. mgr. 6. gr. gildandi laga að formaður óbyggðanefndar skuli vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Fer sú breyting saman við starfslok núverandi framkvæmdastjóra. Engin nauðsyn þykir knýja á um það að sami aðili gegni stöðu framkvæmdastjóra og formanns. Hentugra er að nefndin ráði sjálf allt starfsfólk og skipti með því verkum, að höfðu samráði við forsætisráðuneytið. Um laun og önnur starfskjör starfsfólks, þ.m.t. framkvæmdastjóra, fer eftir því sem gildir um aðra starfsmenn ríkisins.

Um 2. gr.

    Svo sem rakið er hér að framan er útséð um að verkefnum óbyggðarnefndar verði lokið fyrir árið 2007. Að mati nefndarmanna er hins vegar raunhæft að ætla að það geti orðið á árinu 2011. Gríðarlegt umfang verkefnisins, ekki síst við öflun og rannsókn gagna um merki, ráðstafanir að eignarrétti og nýtingu, ásamt samningu ítarlegs rökstuðnings úrskurða, kallar á þessa breytingu. Hin upphaflega viðmiðun hlaut eðli máls samkvæmt að vera óvissu háð, enda ekki byggð á sérstakri áætlun eða greiningu verkefnisins. Slík áætlun liggur hins vegar fyrir nú, í ljósi fenginnar reynslu, sjá fylgiskjal I.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Næstu svæði hjá óbyggðanefnd.
Áætlun.


    Til grundvallar liggur að halda bestu mögulegri tengingu á milli svæða, með því að halda áfram í vestur frá svæði 5 (Norðausturlandi), og leggja áherslu á að ljúka umfjöllun um miðhálendið. Það ætti að takast fyrir árslok 2009. Hentugt er að nota hin gömlu sýslumörk til afmörkunar þar sem sýslurnar eru hæfilega stórar landfræðilegar einingar og ýmis eldri gögn flokkuð út frá þeim, t.d. hjá Þjóðskjalasafni.
    Sjá einnig meðfylgjandi kort.

Svæði 6: Þingeyjarsýslur
    Sá hluti Norður-Þingeyjarsýslu sem ekki tilheyrir svæði 5 og öll Suður-Þingeyjarsýsla. Vettvangsferð sumar 2007. Uppkvaðning í árslok 2007.

Svæði 7: Eyjafjarðarsýsla, Skagafjarðarsýsla og hluti Austur-Húnavatnssýslu
    Eyjafjarðarsýsla öll, Skagafjarðarsýsla öll og Austur-Húnavatnssýsla austan Blöndu. Einnig allur Hofsjökull. Vettvangsferð sumar 2008. Uppkvaðning í árslok 2008.

Svæði 8: Norðvesturland
    Austur-Húnavatnssýsla vestan Blöndu, Vestur-Húnavatnssýsla, Mýrasýsla og Borgarfjarðarsýsla. Einnig allur Langjökull. Vettvangsferð sumar 2009. Uppkvaðning í árslok 2009.

Svæði 9: Vesturland
    Snæfellsnessýsla, Dalasýsla og hluti Strandasýslu (þ.e Bæjarhreppur og Broddaneshreppur). Vettvangsferð sumar 2010. Uppkvaðning í árslok 2010.

Svæði 10: Vestfirðir
    Austur- og Vestur-Barðastrandarsýsla, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla og hluti Strandasýslu (þ.e. Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hólmavíkurhreppur og Kirkjubólshreppur). Vettvangsferð sumar 2010. Uppkvaðning fyrri hluta árs 2011.

Svæði 11: Austfirðir o.fl.
    Austfirðir og annað sem eftir er. Vettvangsferð sumar 2011. Uppkvaðning í árslok 2011.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum.

    Tvær breytingar eru lagðar til í frumvarpinu. Annars vegar að afnema það ákvæði að formaður óbyggðanefndar skuli vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Hins vegar er miðað við að nefndin skuli hafa lokið störfum á árinu 2011 en samkvæmt gildandi lögum skal stefnt að því að nefndin hafi lokið störfum fyrir árið 2007.
    Verkefni óbyggðanefndar hefur reynst mun tímafrekara og kostnaðarsamara en reiknað var með í upphafi og útséð er um að nefndin nái að ljúka störfum í ár. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er einungis verið að færa lög um nefndina nær nýjum veruleika og breyttum aðstæðum. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð umfram það sem nú er, en nefndin hefur 81,6 m.kr. fjárveitingu á fjárlögum 2006.